Prófanir og gangsetning
Iðnaðartækni kemur yfirleitt á verkstað undir lok verktímabils. Þá á allur tæknibúnaður og öll tæknikerfi að vera tilbúin til prófana. Þegar verk eru unnin á skipulegan hátt gengur gangsetningin fljótt og vel fyrir sig.
Tæknilegir verktakar eru ábyrgir fyrir uppsetningu búnaðar og tengingum:
- Pípulagningaverktaki setur upp dælur, loka, nema og annan búnað sem tengist pípukerfum og merkir hvert tæki með kerfisheiti.
- Loftræsiverktaki setur upp loftræsisamstæður, blásara, stokka, nema og annan búnað sem tengist loftræsikerfum og merkir hvert tæki með kerfisheiti.
- Rafverktaki setur upp stjórnskáp, dregur út strengi frá skáp að öllum jaðartækjum (samkvæmt merkingum) og tengir streng í báða enda.
Contents
Prófanir
Skápaprófun
Þegar skápur hefur verið smíðaður eftir teikningum Iðnaðartækni tengjumst við skápnum (iðntölvunni) á verkstæði og prófum öll merki frá raðtengi og inn á iðntölvu. Þannig er tryggt að skápurinn er rétt smíðaður áður en hann er fluttur til uppsetningar á verkstað.
Prófun á verkstað
Prófun á verkstað hefst þegar uppsetningu er lokið (allur jaðarbúnaður settur upp, tengdur og merktur). Fyrsta verkefni Iðnaðartækni á verkstað er að prófa merki til og frá öllum tækjum (I/O prófanir). Í þessum fasa er hvert tæki fyrir sig prófað og staðfest að rétt tæki sé tengt við réttan inngang í stjórntöflu og að tækið gefi frá sér eða taki við merki af réttri tegund og skölun. Þetta er hægt að gera t.d. með því að aftengja/tengja nema, keyra stjórnloka í endastöður, gefa ræsimerki út á mótora og staðfesta af/á merki frá tvístöðutækjum. Þetta er ekki prófun á heildarvirkni kerfa enda hefur á þessu stigi engin stýring verið virkjuð.
Í prófunarfasa þurfa tæknilegir verktakar að vera til taks; rafvirki, pípari og blikkari. Rafvirki þarf að fylgja Iðnaðartækni við prófun á hverjum punkti og aðrir verktakar gætu þurft að skýra út virkni síns búnaðar eða leiðrétta uppsetningu.
Tímalengd prófunarfasa fer eftir því hversu tilbúið kerfið er þegar prófanir hefjast. Prófunarfasi getur tekið allt frá nokkrum klukkutímum (ef allt er klárt - sjá lista að neðan) upp í nokkrar vikur ef mikið er óklárt.
Gangsetning
Þegar I/O prófunum er lokið er stýring virkjuð fyrir eitt kerfi í einu og virknin prófuð og staðfest. Kerfin eru með öðrum orðum ekki komin með heildarvirkni strax eftir I/O prófanir. Í gangsetningarfasa er skjámyndakerfið og/eða skjástöð í töflu líka prófuð og löguð betur að verkefninu.
Tímalengd gangsetningarfasa getur verið nokkrir dagar en lengist verulega ef mikið er óklárt við upphaf prófana.
Tékklisti
Hvað þarf að vera tilbúið til þess að prófanir og gangsetning gangi vel:
- Allur jaðarbúnaður settur upp og tengdur við stjórntöflu.
- Ekki tengja í töflu fyrr en tengt hefur verið á jaðarbúnaði
- Allur jaðarbúnaður merktur með kerfisheiti.
- Nauðsynlegt er að merkja jaðarbúnað um leið og hann er settur upp til þess að gera rafverktaka kleift að tengja rétt tæki.
- Hægt er að merkja búnað til bráðabirgða við uppsetningu, t.d. með málarateipi og tússuðu kerfisheiti.
- Modbus búnaður stilltur með rétta adressu og samskiptahraða. Sjá nánar í kafla um Modbus.
- Modbus netið skrásett af rafverktaka í lista með röð tækja á brautinni.
- Modbus strengir merktir í báða enda þannig að ljóst sé hvaða tæki séu næst á undan og eftir.
- Loftræsisamstæður tilbúnar, stilltar og klárar fyrir ræsingu.
- Ef um er að ræða sjálfstæðar samstæður þá er mikilvægt að loftræsiverktaki hafi sérþekkingu á stýrikerfi hennar.
- Stjórntafla yfirfarin af rafvirkja og tilbúin til spennusetningar.
- Opið fyrir heitt og kalt vatn að öllum kerfum.
- Hringrásarkerfi fyllt með vökva (vatn/glycol).
- Frítt aðgengi að öllum jaðarbúnaði. Ekki má loka búnað inni í vegg eða lofti fyrr en hann hefur verið prófaður.
- Tækjanet tilbúið með allar stjórntölvur og I/O einingar á neti.
- VPN tenging milli Iðnaðartækni og tækjanets virk.
- Opinn eldveggur milli kerfiráðar og tækjanets, sjá nánar í kafla um uppsetningu netkerfis.
Ef prófanir og gangsetning fara fram í fleiri áföngum er hætta á að verktakar missi yfirsýn og að verkið sé ekki almennilega klárað. Slíkt niðurbrot í lokafasanum kostar alla verktaka mikinn tíma og kostnaðarsaman tvíverknað.
Kerfisbundinn frágangur
Árið 2023 kynnti Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir (FSRE) nýja aðferðafræði við framkvæmd verkefna. Aðferðafræðin er kölluð Kerfisbundinn frágangur, hún er upprunnin í Noregi (Systematisk Ferdigstillelse) og er nú samþætt í flest byggingarverkefni þar í landi. Kerfisbundinn frágangur gengur út á að fylgja ákveðnum ferlum við undirbúning, hönnun, uppsetningu og gangsetningu tæknikerfa og er ásetningurinn að draga úr óvissu og göllum við framkvæmd verkefna. Með þessu er hægt að tryggja að verkkaupi fái þau gæði sem óskað var eftir, að bygging uppfylli allar virknikröfur og að tæknikerfi virki samkvæmt lýsingu. Þau atriði sem fjallað er um hér að ofan eru runnin af sömu rótum og Kerfisbundinn frágangur og miða að því að framkvæmd við stýrihluta verkefna gangi vel.
FSRE hefur gefið út Handbók um kerfisbundinn frágang og gefur hún góða innsýn í hugmyndafræðina.
Norcom-Nordic Commisioning eru helstu sérfræðingar landsins í Kerfisbundnum frágangi.