Loftræsikerfi - Rekstrarfrávik

From
Jump to: navigation, search

Ýmis rekstrarfrávik koma óhjákvæmilega upp í loftræsikerfum. Hér eru talin upp nokkur þeirra og góð ráð til að leiðrétta frávikin eða redda sér til skemmri tíma ef það á við.

Síuvakt

Síur í loftræsikerfum þéttast smám saman af ryki og öðrum óhreinindum sem í þær berast. Stýrikerfi vaktar síurnar, ýmist með mismunaþrýstiliða (stafrænt merki AF eða Á) eða mismunaþrýstinema (hliðrænt merki með mælingu). Þegar mismunaþrýstingurinn yfir síuna fer yfir innstillt gildi kemur upp tilkynning um rekstrarfrávik í notendaviðmótinu (skjámyndakerfi eða skjástöð) og þá er kominn tími til að skipta um síuna. Það er ekki endilega áríðandi að skipta um síuna strax en frávikið situr inni í kerfinu þar til skipt hefur verið um síu.

Mismunaþrýstingurinn er mældur með slöngum sem tengdar eru frá stokk inn á liðann/nemann. Slangan sem tengd er á undan síunni fer í "+" hliðina á liða/nema og slangan sem er á soghlið síunnar fer í "-" port liða/nema.

Frostvörn

Ef hitastig í hringrás hitara eða hitastig í innblæstri fellur undir innstillt mörk er það til merkis um að samstæðan ræður ekki við að hita loftið nægilega mikið. Þetta getur verið alvarlegt frávik og hætta á tjóni á samstæðunni ef ekki er gripið til aðgerða. Þess vegna stöðvast samstæðan þegar frostvörnin virkjast. Áríðandi er að athuga ástandið og leysa úr því áður en samstæðan er sett í gang aftur.

Í miklum kulda getur skapast það ástand að kerfið ræður einfaldlega ekki við að halda hitastigi réttu. Ein leið til að redda sér til skamms tíma er að opna hurð að innblásara og draga þannig hlýtt loft úr tækjarými inn í samstæðuna. Með þessu er hægt að halda samstæðunni í gangi og tryggja loftræsingu í rýmum en þetta er bara skammtímalausn og má ekki nota til lengri tíma.