Hreinsikerfi sundlaugakerfa

From
Revision as of 10:54, 9 May 2023 by Kristjan (talk | contribs) (Sandsíur)
Jump to: navigation, search
Sandsíur með loftstýrðum skiptilokum

Flestar sundlaugar hafa hringrásarkerfi þar sem vatni frá lauginni er dælt í gegnum varmaskipta og hreinsikerfi áður en það fer aftur til laugarinnar, þannig helst vatnið hreint og við réttan hita.

Sandsíur

Algengast er að nota sandsíur til hreinsunar á laugarvatninu. Sandsíur eru stórir tankar sem eru rúmlega hálffullir af fínum sandi. Hringrásardælur dæla laugarvatninu að ofanverðu inn í síurnar og þegar vatnið þrýstist í gegnum sandinn þá sitja óhreinindi úr vatninu eftir. Vatnið heldur áfram í gegnum sandinn og fer að neðan út úr síunni og aftur til laugar.

Bakskolun

Óhreinindi úr laugarvatninu situr eftir í sandinum og síurnar þéttast smám saman. Hægt er að mæla hreinleika sandsins með mismunaþrýstinema. Þá er mældur þrýstingur í síunni fyrir ofan sandinn og fyrir neðan sandinn. Þegar sandurinn verður óhreinn (þéttur) þá eykst mismunurinn á þrýstingi fyrir ofan og neðan sandinn. Hægt er að vakta mismunaþrýstinginn í stýrikerfi laugarinnar og jafnvel nota mismunaþrýstinginn sem skilyrði fyrir sjálfvirkri bakskolun.

Sandurinn í síunum er hreinsaður reglulega til þess að tryggja hringrás laugarvatns og hreinsigetu síanna. Þessi aðgerð er kölluð bakskolun. Við bakskolun er streymi vatnsins í gegnum síuna snúið við, vatninu er dælt að neðan upp í gegnum sandinn og við það losna óhreinindi og lyftast upp úr sandinum. Óhreinindunum er í þessum fasa dælt út í skólp. Bakskolun er framkvæmd nokkrum sinnum í mánuði. Með stjórnlokum á síunni er hægt að sjálfvirknivæða bakskolunina þannig að hún fari fram t.d. á nóttunni einu sinni í viku.

Meiri fróðleikur

Ákaflega fróðleg grein birtist í Gangverki, fréttabréfi VST, 2. tbl. 2. árgangur, nóvember 2001 Hreinsun laugarvatns.