Hreinsikerfi sundlaugakerfa

From
Jump to: navigation, search
Sandsíur með loftstýrðum skiptilokum

Flestar sundlaugar hafa hringrásarkerfi þar sem vatni frá lauginni er dælt í gegnum varmaskipta og hreinsikerfi áður en það fer aftur til laugarinnar, þannig helst vatnið hreint og við réttan hita. Yfirleitt er klór bætt í vatnið til sótthreinsunar.

Sandsíur

Algengast er að nota sandsíur til hreinsunar á laugarvatninu. Sandsíur eru stórir tankar sem eru rúmlega hálffullir af fínum sandi. Hringrásardælur dæla laugarvatninu að ofanverðu inn í síurnar og þegar vatnið þrýstist í gegnum sandinn þá sitja óhreinindi úr vatninu eftir. Vatnið heldur áfram í gegnum sandinn og fer að neðan út úr síunni og aftur til laugar.

Bakskolun

Óhreinindi úr laugarvatninu situr eftir í sandinum og síurnar þéttast smám saman. Hægt er að mæla hreinleika sandsins með mismunaþrýstinema. Þá er mældur þrýstingur í síunni fyrir ofan sandinn og fyrir neðan sandinn. Þegar sandurinn verður óhreinn (þéttur) þá eykst mismunurinn á þrýstingi fyrir ofan og neðan sandinn. Hægt er að vakta mismunaþrýstinginn í stýrikerfi laugarinnar og jafnvel nota mismunaþrýstinginn sem skilyrði fyrir sjálfvirkri bakskolun.

Sandurinn í síunum er hreinsaður reglulega til þess að tryggja hringrás laugarvatns og hreinsigetu síanna. Þessi aðgerð er kölluð bakskolun. Við bakskolun er streymi vatnsins í gegnum síuna snúið við, vatninu er dælt að neðan upp í gegnum sandinn og við það losna óhreinindi og lyftast upp úr sandinum. Óhreinindunum er í þessum fasa dælt út í skólp. Bakskolun er framkvæmd nokkrum sinnum í mánuði. Með stjórnlokum á síunni er hægt að sjálfvirknivæða bakskolunina þannig að hún fari fram t.d. á nóttunni einu sinni í viku.


Notkun klórs

Sundlaug skilti.jpg

Klór er algengasta sótthreinsiefni í sundlaugum á Íslandi. Sérstök stjórnstöð sér um að mæla styrk klórs í vatninu og bætir klór inn í kerfið eftir þörfum. Þegar klór er bætt í laugarvatnið breytist hann í svokallaðan frían klór og það er hinn fríi klór sem hefur sótthreinsigetu.

Loftgæði við innilaugar

Þegar frír klór blandast svita og þvagi (oxun) verður til svokallaður bundinn klór (klóramín). Bundinn klór hefur ekki sótthreinsigetu og er í raun óæskilegur. Klórlykt sem við finnum af sundlaugum stafar af bundnum klór. Bundinn klór veldur sviða í augum, kláða og óþægindum í öndunarvegi. Í útilaugum sér náttúran um að blása burtu óheilnæmu lofti af klóramínum en í innilaugum þarf sérstaklega að huga að loftræsingu til að tryggja sundlaugargestum heilnæmt loft.

Í áratugi hafa verið uppi skilti í búningsklefum allra sundlauga þar sem gestir eru skyldaðir til að þvo sér vandlega án baðfata með sápu áður en gengið er til laugar. Sumir útlendingar telja þetta íslenska sérvisku eða hefð en hér að ofan er útskýrð tæknileg ástæða fyrir því að sápuþvottur fyrir sund er nauðsynlegur.

Meiri fróðleikur

Ákaflega fróðleg grein birtist í Gangverki, fréttabréfi VST, 2. tbl. 2. árgangur, nóvember 2001 Hreinsun laugarvatns.