Hitastýring rýma

From
Jump to: navigation, search

Til þess að stýra hita í ákveðnu rými er hægt að nota ýmsar aðferðir. Allir þekkja herbergi með ofni og glugga, þar er hitinn reglaður með því að stilla ofnlokann í hentuga stöðu og lofta með glugganum eftir þörfum. Í stærri kerfum eru þó oft fjölbreyttari samsetningar orkugjafa.

Orkugjafar

Hitastýring í rými með eftirhitara, flæðilokum og kælirafti

Með sjálfstýrðu hitakerfi er m.a. notast við stjórnloka á eftirhitara, ofnum, gólfhita og kæliröftum og einnig geta flæðilokur hjálpað til við að regla hitastigið.

Eftirhitari

Eftirhitari er varmaskiptir á stokki með fersklofti að rýminu og er varmaorka frá vatni í eftirhitaranum flutt yfir í loftið. Orku til eftirhitarans er stýrt með stjórnloka. Hitastig í rýminu svarar fljótt þegar hitastigi innblástursloftsins er breytt og er ákjósanlegt að nota vegghitanema eða hitanema í útsogsstokki til að regla eftirhitarann.

Ofn

Hægt er að stýra ofnlokanum frá iðntölvunni og með því stjórnast hversu mikil varmaorka er flutt inn í rýmið. Hitastig í rýminu svarar tiltölulega fljótlega þegar stöðu ofnlokans er breytt. Hér hentar að nota vegghitanema eða hitanema í útsogsstokki.

Gólfhiti

Gólfhiti hentar vel þar sem óskað er eftir volgu gólfi, þetta er algeng lausn í búningsklefum og öðrum blautum rýmum þar sem gólfhitinn hjálpar líka til við að þurrka gólfið ásamt því að skaffa grunnhita í rýmið. Hægt er að stýra gólfhitalokanum frá iðntölvunni og með því stjórnast hversu mikil varmaorka er flutt inn í rýmið. Hitastig í rýminu svarar seint þegar stöðu gólfhitalokans er breytt. Hitastig í gólfinu svarar hins vegar fljótar og þess vegna er æskilegt að setja hitanema í gólfið því þannig næst betri reglun. Stundum er hitastig gólfsins reglað út af fyrir sig og aðskilið frá annarri hitastýringu rýmisins, þá reglar kerfið gólfhitann eftir eigin óskgildi fyrir hitastig gólfsins.

Kæliraftur

Kæliraftur er - eins og eftirhitari - varmaskiptir á stokki með fersklofti að rýminu en í þessu tilfelli er kaldri hringrás veitt gegnum kæliraftinn. Þegar loftið streymir í gegnum kæliraftinn kólnar það og það kólnar meira eftir því sem stjórnloki á kæliraftinum er meira opinn. Hitastig í rýminu svarar fljótt þegar hitastigi innblástursloftsins er breytt og er ákjósanlegt að nota vegghitanema eða hitanema í útsogsstokki til að regla kæliraftinn.

Flæðilokur

Flæðilokur eru stiglausar loftlokur sem regla loftmagn til og frá rými. Ef hitastig frá loftræsisamstæðu er lægra en óskgildi rýmisins er hægt að auka loftflæði til að lækka hitastig rýmisins. Flæðilokur eru einnig notaðar til að regla loftgæði (út frá CO2 mælingu) og eru flæðilokureglar stundum samkeyrðir til hita og CO2 stýringar. Sjá nánar grein um flæðilokur.

Reglun

Nánar er fjallað um kafla um reglun í sérstökum kafla.

Dæmi um samsetningu orkugjafa

Ofn og kæliraftur

Þar sem ofn er í rými og kæliraftur á tilheyrandi innblástursstokki fer reglunin þannig fram að kælirafturinn er notaður ef kæla þarf rýmið en ofninn ef hita þarf rýmið. Ofninn og kælirafturinn keyra aldrei samtímis.

Gólfhiti og flæðilokur

Þar sem gólfhiti er í rými og flæðiloka á tilheyrandi innblástursstokki fer reglunin þannig fram að flæðilokurnar eru notaðar ef kæla þarf rýmið en gólfhitinn ef hita þarf rýmið. Flæðilokan keyrir þá loftmagn 0-100% til aukinnar kælingar en gólfhitinn 0-100% til aukinnar hitunar. Flæðilokan er fyrst keyrð niður í lágmarksloftmagn áður en gólfhitinn fer að opna (nema CO2 reglun sé samhliða). Reglun á gólfhitanum er tiltölulega hæg vegna tregðu í svörun á rýmishitanum.