Hitastýring sundlaugakerfa

From
Revision as of 14:54, 29 May 2023 by Kristjan (talk | contribs)
Jump to: navigation, search
Stýring varmaskiptis fyrir laugarkerfi

Hitastigi sundlauga er haldið stöðugu með því að keyra hringrásarvatnið að hluta í gegnum varmaskipta. Við varmaskiptana eru handvirkir lokar og með þeim er hægt að stilla hversu mikið vatn fer í gegnum varmaskiptana og hversu mikið fer fram hjá þeim. Aðeins það vatn sem fer gegnum varmaskiptana hitnar. Hitastig frá varmaskiptinum er þess vegna nokkuð hærra en framrásarhiti til laugarinnar en gæta þarf að því að hitinn frá varmaskiptunum verði ekki of hár því þetta getur skemmt límdar plastlagnir sem hringrásarkerfið er að stórum hluta gert úr.

Sundlaugar hafa allmikla varmarýmd og hitastig þeirra breytist tiltölulega hægt. Reglun á hitastigi sundlauga er því flókið langtímaferli og er jafnan notast við marga hitanema. Hér á eftir er vísað til kerfisheita í myndinni til hægri:

  • Laugarhiti (HN.67.01) er alla jafna mældur í sýnatökulögn. Þetta hitastig ber stýrikerfið saman við óskgildi og ákveður út frá því hversu heitu vatni þurfi að dæla til laugarinnar (framrás).
  • Framrásarhiti (HN.67.04): Stýrikerfið ákvað í síðasta skrefi hversu hár framrásarhitinn eigi að vera. Og ákveður nú hversu hár hitinn frá varmaskiptinum eigi að vera til þess að framrásarhitinn verði réttur.
  • Hiti frá varmaskipti (HN.67.03) var ákveðinn í síðasta skrefi en er þó takmarkaður við ákveðið hámark (t.d. 52 gráður) því plastlagnir og límingar skemmast við of hátt hitastig. Hitastigi frá varmaskiptinum er nú stýrt beint með stjórnloka (SL.67.01) sem stýrir rennsli hitaveituvatns í gegnum varmaskiptinn.

Sjá nánari upplýsingar um reglun í annarri grein.

Athugasemd við kerfismynd

Á kerfismyndinni hér til hægri er stjórnlokinn á aðrennsli hitaveitunnar (túr). Þetta getur verið óheppilegt ef hitaveituvatnið er mjög heitt vegna þess að hitinn leiðir þá frá lokanum og upp í mótorinn og getur stytt líftíma mótorsins verulega. Á frárennsli hitaveitunnar (retúr) er vatnið kaldara og þess vegna betra að staðsetja stjórnlokann þar. Virkni varmaskiptisins er nákvæmlega sú sama vegna þess að stjórnlokinn stýrir flæðinu í gegnum varmaskiptinn óháð því hvoru megin lokinn er staðsettur.

Orkunotkun

Athugið að sundlaugar og heitir pottar nota mikla varmaorku. Nokkrar leiðir til að draga úr orkunotkun eru:

  • lækka hitastig lauga og potta
  • leggja út brautarlínur til að minnka öldugang og kælingu
  • lækka hitastig potta á nóttunni
  • leggja einangrandi ábreiður yfir laugar og potta utan rekstrartíma
Tengdar greinar: Afl og orka