Smíði stjórnskáps

From
Jump to: navigation, search

Uppsetning stjórnskáps

Stjórnskápur hýsir iðntölvuna og annan búnað sem tengist stýrikerfinu s.s. spennugjafa, segulliða, raðtengi og fleira. Við smíði stjórnskáps er að mörgu að huga til þess að uppsetning, rekstur og viðhald kerfisins verði sem best. Vel smíðaður skápur er snyrtilegur, aðgengilegur og skiljanlegur og skápurinn á að veita iðntölvunni og öðrum stjórnbúnaði ákjósanleg umhverfisskilyrði.

Miðað er við að stjórnskápar séu botnplötuskápar. Ekki er gert ráð fyrir að notaðar séu greinatöflur.

Dæmi um vel útfærða stjórnskápa eru neðst í þessari grein.

Ytra byrði

Framhlið stjórnskáps

Hurðir

Minni stjórnskápar hafa flestir eina hurð en stærri skápar tvær hurðir. Hafa þarf í huga að rýmið sem skápurinn verður í getur verið þröngt og ómögulegt að opna stóra hurð. Þá getur þurft að setja upp skáp með tvær minni hurðir eða koma skápnum fyrir annars staðar.

Skjár

Í mörgum stjórnskápum er skjástöð í hurðinni sem gefur notendum einfalt og aðgengilegt viðmót við stýrikerfið. Skjárinn á að vera í hentugri vinnuhæð, t.d. 160 cm yfir gólfi.

Rofar og ljós

Algengt er að rofar, snerlar og gaumljós séu í hurð stjórnskáps. Þessi tæki eiga líka að vera í hentugri vinnuhæð, gjarnan fyrir neðan skjá ef hann er í töflunni.

Strengnipplar

Strengnipplar þétta inntök strengja í stjórnskáp og veita togfestu. Staðsetning nipplanna ætti að stemma við legu strengja að skápnum, t.d. að ofan eða á hlið skáps.

Kæling/loftræsing

Iðntölvur og annar stjórnbúnaður þolir talsverðar breytingar í umhverfisaðstæðum (hiti, raki) en til þess að lengja líftíma búnaðarins er best að halda ca. stofuhita í stjórnskápnum. Ýmis stjórnbúnaður gefur frá sér talsverðan varma og í stærri töflum ætti þess vegna að leiða varmann í burtu. Þetta er hægt að gera t.d. með ristum neðst og efst í skáp og jafnvel með útsogsviftu á efri rist. Koma þarf fyrir loftsíu í ristunum til þess að koma í veg fyrir að ryk dragist inn í skápinn.

Ef skápurinn stendur í heitu rými fæst lítil kæling fyrir skápinn með lofti úr rýminu. Í slíkum tilfellum ætti að leggja grannan loftræsistokk að skápnum og blása lofti að neðan inn í skápinn og hleypa loftinu út að ofan.

Ef skápurinn er í rými með miklu ryki þarf að halda yfirþrýstingi á skápnum þannig að ryk haldist frá honum. Yfirþrýstingur fæst með loftræsistokk að skápnum (sjá síðustu línu).


Botnplata og annað innra byrði

Botnplata stjórnskáps

Höfuðrofi

Höfuðrofann skal staðsetja sem næst inntaki aflfæðingar til skápsins til þess að ekki þurfi að draga svera víra víða um töfluna.

Vírarennur

Vírar í töflunni eru lagðir í rennur og er þannig einfalt að þræða víra á milli þeirra hluta sem tengjast saman.

Passa þarf að rennur liggi ekki of nálægt búnaði sem þarf kælingu og að rennur séu ekki of háar svo þær hefti loftflæði um skápinn.

Raðtengi

Raðtengi eru yfirleitt flokkuð eftir virkni. Raðtengjablokkir bera gjarnan heiti X1 (sterkstraumur) og X3 (stýristraumur) en geta verið fleiri eftir hentugleikum.

Skermtengi

Hliðræn merki eru viðkvæm fyrir truflunum af völdum rafsegulsviðs og þess vegna eru slík merki lögð í skermuðum strengjum. Þegar skermaður strengur er tekinn inn í stjórntöflu er hann afeinangraður og klemmdur við skermtengi. Þannig er tryggt að skermurinn veitir vörn gegn ytri truflunum í öllum strengnum.

Hjálparliðar

Hjálparliðar eru notaðir þar sem þarf að gefa meiri straum út heldur en iðntölva ræður við eða til að loka snertu til að gefa merki til annars tækis. Iðntölvan gefur þá út lítinn straum á hjálparliðann til að loka snertu í liðanum og liðinn getur þá gefið út meiri straum (eða einfaldlega gefið út lokaða snertu). Hjálparliðar eru með einn fasa út. Hjálparliða skal setja upp í skipulegri röð hlið við hlið. Nauðsynlegt er að merkja hjálparliðana skv. teikningu Iðnaðartækni.

Velja þarf hjálparliða með rétta tegund stýristraums miðað við hvað kemur frá iðntölvunni (24VAC eða 24VDC).

Kraftliðar

Kraftliðar (spólurofar) virka eins og hjálparliðar en eru gjarnan gerðir fyrir meiri straum og fleiri fasa. Kraftliða á líka að raða skipulega í töflu og merkja skv. teikningu.

Velja þarf kraftliða með rétta tegund stýristraums miðað við hvað kemur frá iðntölvunni (24VAC eða 24VDC).

Vör

Venjuleg sjálfvör eru notuð til að verja spennufæðinguna fyrir of háum straumi og skammhlaupi. Sjálfvör eru með fastan útsláttarstraum og eru ekki stillanleg. Hægt er að fá stöðusnertur á sjálfvör og með því móti er hægt að vakta stöðu varanna með iðntölvu. Vörin eiga að vera í skipulegri röð og merkt skv. teikningu.

Mótorsjálfrofar

Mótorsjálfrofar eru notaðir til að verja spennufæðingu og jaðarbúnað. Mótorsjálfrofi er fullkomnari en sjálfvar og auk þess að vakta yfirstraum og skammhlaup getur hann slegið út við yfirspennu og yfirálag yfir tíma. Útsláttarstraum mótorsjálfrofa þarf að stilla í samræmi við tækið sem hann spennufæðir.

Spennugjafar

Stjórnbúnaður notast yfirleitt við 24VAC og/eða 24VDC og er spennugjöfum komið fyrir í töflu. Ákjósanlegt er að hafa spennugjafa fyrir ofan iðntölvuna í skápnum vegna þess að þeir geta myndað talsverðan varma og best er að iðntölvan standi ekki í heitum varmastraumi.Staðsetning iðntölvu

Tryggja þarf loftflæði í gegnum iðntölvuna

Iðntölva hitnar þegar hún er í rekstri og þess vegna þarf að tryggja nauðsynlega loftun. Þá þarf að gæta að því hvernig hún er gerð og hvar loftunarraufar eru á henni. Iðntölvuna skal setja á DIN-skinnu í þannig stöðu að lóðréttur loftstraumur geti runnið óhindrað í gegnum hana.

Sjá einnig kafla að ofan um kælingu/loftræsingu.


Dæmi um útfærslur

Hér að neðan eru nokkur dæmi um vel útfærða stjórnskápa. Mikilvægasta reglan er að vera metnaðarfullur og vandvirkur :-) Vel smíðaður skápur hefur marga kosti, það er auðveldara að vinna við hann á verkstað, það er einfaldara að viðhalda honum, hann hitnar minna og svo er hann augnayndi fyrir sérvitringana í bransanum.

(Smellið á mynd til að sjá hana stærri)