Loftgæðastýring

From
Revision as of 11:34, 7 March 2024 by Kristjan (talk | contribs) (Nánari upplýsingar)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search
Áhrif CO2 á heilsu og líðan

Mæling loftgæða

Loftgæði í rýmum þar sem fólk dvelur eru yfirleitt mæld í mettun koltvísýrings (CO2) því við öndum frá okkur koltvísýringi og mettun þessarar lofttegundar gefur til kynna notkunarálag rýmis. Hreint loft inniheldur u.þ.b. 400 ppm CO2 og algengt er að skrifstofurými fari upp undir 1000 ppm í notkun, jafnvel hærra. Þetta hefur neikvæð áhrif á heilsu og líðan en hægt er að hafa áhrif til hins betra með loftræsingu.

Í byggingarreglugerð, grein 10.2.8 segir: "Tryggt skal að CO2 magn í innilofti verði ekki meira að jafnaði en 0,08% CO2 (800 ppm) og fari ekki til skamms tíma yfir 0,1% CO2 (1.000 ppm)."

Stýring loftgæða

Einfaldasta og ódýrasta leiðin til að halda loftgæðum viðunandi er að opna glugga en þetta er ekki hentugt í öllum tilfellum og þetta getur aukið hitunarkostnað.

Með vélrænni loftræsingu eru ákveðin loftskipti tryggð, fersklofti er dælt inn í rými og staðið/notað/óhreint loft fjarlægt. Þetta dugir ágætlega í mörgum tilfellum en getur verið ófullnægjandi í húsnæði þar sem notkunarálag er mjög breytilegt, t.d. í fundarherbergjum. Í slíkum tilfellum er hægt að stýra loftmagni með flæðilokum (sjá kafla um flæðilokur) og er þá loftmagn til/frá rými aukið þegar CO2 nemar í viðkomandi rými skynja aukna CO2-mettun. Og þegar loftgæðin batna er aftur hægt að draga úr loftmagni. Með þessu móti er einnig dregið úr orkunotkun með því að herbergi sem ekki eru í notkun kalla hvorki á loft né hitun, þ.e.a.s. blásarar geta keyrt hægar og upphitunarkerfi þarf minni orku þegar minna fersklofti er dælt inn í rými.


Áhrif rakastigs á ýmsar breytur

Raki í innilofti

Raka í innilofti er sjaldan stýrt á Íslandi. Virkri rakastýringu er helst beitt þar sem kröfur um rakastig eru strangar, t.d. á listasöfnum eða í ákveðnum framleiðslurýmum. Annars tryggir almenn góð loftun yfirleitt rétt rakastig innanhúss. Góð loftskipti í rökum rýmum (búningsklefum, þvottahúsum o.s.frv.) er mikilvæg til að halda rakastigi niðri og koma í veg fyrir myglu og skyld vandamál. En of lítill raki getur líka valdið vandræðum þótt þetta sé lítið vandamál á Íslandi. Á myndinni hér til hliðar sést hvaða áhrif rakastig hefur á ýmsar breytur.

Nánari upplýsingar

Á vef Vinnueftirlitsins er mjög góð síða um vinnuumhverfi. Þar er meðal annars fjallað um aðbúnað, loftgæði, hávaða og lýsingu og veittar ítarlegar upplýsingar og tilvísanir. Óhætt er að mæla með þessari síðu fyrir þá sem vilja komast til botns í því hvað er gott vinnuumhverfi og hvaða kröfur er eðlilegt að gera.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur úti góðum vef um byggingarreglugerð.