Hringrás hita- og kælikerfa

From
Revision as of 12:25, 3 July 2023 by Kristjan (talk | contribs) (Hringrás)
Jump to: navigation, search
Iðntölva með spennufæðingu lengst til vinstri, nettengingu í bláum kapli og stýrimerki á einingunum

Til þess að hita og kæla rými þarf að skaffa heitt og kalt vatn að eftirhiturum, ofnum, kæliröftum o.s.frv. Einföld lausn á þessu gæti verið að tengja heitt og kalt vatn beint frá inntaki að tækjunum en það leiðir bæði til orkusóunar og áhættu á meira tjóni ef lagnir gefa sig. Þess vegna eru oftast settir upp varmaskiptar þar sem heitu og köldu vatni er dælt í lokaðri hringrás og hitastiginu á hringrásinni er stýrt með stjórnloka á hitaveitu eða köldu vatni.

Á myndinni hér til hliðar er sýnd dæmigerð hitahringrás. Þar er hitaveitan vinstra megin við varmaskipti og stjórnloki ræður því hversu mikill hiti er fluttur frá hitaveitunni yfir í hringrásina. Meiri opnun á stjórnloka gefur hærri hita í hringrás. Hægra megin er sjálf hringrásin. Þar er dæla sem heldur hringrásinni á hreyfingu og þar eru hitanemar, í þessu tilfelli er hitastiginu í hringrásinni stýrt eftir óskgildi fyrir framrásarhita. Hringrásin í þessu dæmi skaffar varmaorku fyrir tvær loftræsisamstæður. Hitanemar í bakrás frá varmaskipti og bakrás hringrásarinnar eru til upplýsinga og hægt er að nota þessa nema til að greina hegðun og frávik í kerfinu.

Í lokuðum hringrásarkerfum er oft settur upp þrýstinemi til þess að fylgjast með því að nægur vökvi sé í hringrásinni. Ef þrýstingur er lægri en 1 bar bendir það til þess að það vanti vökva í hringrásina og þá getur hún ekki flutt þann varma sem til er ætlast. Þá þarf að bæta vökva á hringrásina, það er ýmist gert með handvirkri dælu eða rafmagnsdælu.

Kælihringrás er byggð upp á sama hátt en þá er köldu vatni stýrt að varmaskiptinum eftir óskgildi fyrir hitastig framrásar. Meiri opnun á stjórnloka í kælikerfi gefur lægra hitastig á hringrásinni.

Varmaskiptar

Varmaskiptar eru notaðir til að flytja orku úr einu efni í annað. Þannig er t.d. hitaveituvatn keyrt inn á aðra hlið varmaskiptis og lokuð hitahringrás inn á hina hliðina. Með því að auka rennsli hitaveituvatnsins hitnar hringrásarvatnið. Annað dæmi er hitaflötur í loftræsikerfi þar sem hitahringrás fer inn á aðra hlið hitaflatarins og loft streymir í gegnum hina hliðina og hitnar við það.

Varmaskiptar eru yfirleitt tengdir "mótstraums", það þýðir að efnið sem á að gefa orku streymir á móti efninu sem á að fá orku. Ef varmaskiptir er tengdur "meðstraums" verður nýtni hans umtalsvert lakari.

Hringrás

Eins og nafnið ber með sér ætti vatn stöðugt að streyma um hringrásina. Það kemur fyrir að hringrásarkerfið er hannað eða smíðað sem ófullkomin hringrás. Það er þegar tvívega lokar eru settir á alla notendur og ekkert framhjáhlaup. Þetta er ófullkomin hringrás vegna þess að hringrásin lokast ef enginn notandi er að kalla á hitun. Þar með stöðvast rennsli yfir varmaskiptinn og reglirinn verður óstöðugur. Hringrásardælan er yfirleitt þrýstistýrð og dregur úr afköstum þegar hringrásin lokast þannig að þetta á ekki að hafa neikvæð áhrif á dæluna. Ef dælan væri ekki þrýstistýrð myndi hún berjast við að dæla á móti lokaðri hringrás þangað til hún bræddi úr sér.

Þessi hönnun veldur minni vandamálum að vetrarlagi því þá eru yfirleitt einhverjir notendur að kalla á hita en þegar hlýnar í veðri getur varmaendurvinnsla oft annað hitaþörf og stjórnloki á hitahringrás lokar.

Á myndinni að neðan sést hönnun með tvívega loka að báðum samstæðum, hringrásin kemst ekkert annað ef báðir lokar loka.

Til þess að bæta ástandið er best að setja þrívega loka á samstæðuna sem er „lengst í burtu“ (sjá rauðu viðbótina í teikningunni). Með því hleypir lokinn annað hvort heitu vatni í gegnum element samstæðunnar eða framhjá elementinu. Þannig er tryggt að hringrásin er alltaf opin og reglirinn fær betri forsendur til að vinna rétt. Með því að setja þrívega loka á samstæðuna sem er lengst í burtu fáum við líka heita hringrás í allt kerfið og styttri tíma tekur fyrir hita að berast að þeirri samstæðu sem kallar á hita

Hringrás sem lokast þegar notendur hætta að kalla á hita. Hringrásin ætti að vera með þrívega loka á a.m.k. einum notanda.