Afl og orka

From
Revision as of 10:40, 21 November 2022 by Kristjan (talk | contribs)
Jump to: navigation, search

Við notum orku í allar okkar athafnir. Í þessari grein er fyrst og fremst fjallað um raforku og varmaorku.

Samlíking fyrir afl og orku

Fyrst er ágætt að skýra tvö hugtök sem gjarnan er ruglað saman.

  • Afl er oft uppgefið í kílóvöttum (kW) og segir til um hversu hratt orka er notuð. Það má líkja þessu við vatnsrennsli, þ.e. hversu mikið vatn rennur á hverjum tíma.
  • Orka er oft uppgefið í kílóvattstundum (kWh) og er uppsöfnuð aflnotkun yfir tíma. Þessu má líkja við vatnssöfnun, þ.e. hversu mikið vatn safnast í fötu.

Dæmi:

  • Ef maður notar 1 kW afl í tvær klukkustundir hefur maður notað 2 kWh af orku.
    • Samlíking vatnsnotkun: Ef maður sprautar 2 l/s í 5 sekúndur hefur maður safnað 10 lítrum.
  • Ef maður notar 10 kWh af orku á tveimur klukkustundum hefur maður að jafnaði notað 5 kW afl á þessu tímabili.
    • Samlíking vatnsnotkun: Ef maður fyllir 20 lítra fötu á 5 sekúndum hefur maður að jafnaði sprautað 4 l/s.

Stundum er sagt frá því að verksmiðja þurfi 10 MW á ári eða að verksmiðja þurfi 100 MWh til rekstrar þá er þetta í besta falli ónákvæmt. Réttara væri að segja að verksmiðja þurfi 10 MW afl til síns rekstrar og þá er átt við það afl sem þarf á hverju augnabliki til að knýja búnað verksmiðjunnar. Einnig væri hægt að segja að verksmiðja noti 5000 MWh á ári og þá er verið að lýsa því hveru mikla orku þarf til að knýja verksmiðjuna í heilt ár.

Raforka er notuð til að knýja vélar og tæki (t.d. ljós, rafmagnsmótorar og ýmis önnur raftæki) og varmaorka er notuð til að hita hluti (ofnar, sundlaugar, neysluvatn o.s.frv.). Orkan er framleidd í orkuverum og henni er dreift í veitukerfum.

Orkuver

Orka er framleidd í orkuverum. Raforka er á Íslandi að mestu framleidd með rafölum sem knúnir eru vatnsafli og jarðvarma. Varmaorka á Íslandi er að mestu framleidd með varmaskiptum sem hitaðir eru með jarðhita. Í þessum virkjunum er sem sagt búnaður sem umbreytir orku frá náttúrunni í nýtanlega orku fyrir okkur. Þessi umbreytibúnaður (rafalar og varmaskiptar) hefur sín takmörk og getur ekki skilað af sér meiri orku en hann var hannaður fyrir.

Vatnsaflsvirkjun

Veitukerfi

Orka er flutt með lögnum frá orkuverum. Varmaorka er flutt í hitaveiturörum og raforka er flutt í rafmagnsstrengjum. Stofnlagnir frá orkuverum eru sverar lagnir sem greinast svo upp í grennri lagnir eins og æðakerfi. Þessar lagnir eru af ákveðinni stærð og eru hannaðar til að þjóna því svæði sem þær liggja til. Eftir því sem lagnirnar eru grennri þeim mun minna afl geta þær borið. Þannig er ekki sjálfgefið að hvaða notandi sem er geti aukið aflið til sín án þess að breytingar séu gerðar á veitukerfinu.

Heitavatnsframleiðsla

Orkunotkun

Þar sem bæði orkuver og veitukerfi hafa takmarkaða afkastagetu er mikilvægt að notendur takmarki sína orkunotkun þannig að orkuver og veitukerfi geti þjónað öllum sem á þurfa að halda.

Þegar við hlöðum rafmagnsbílana okkar, eldum mat og notum þurrkara notum við umtalsverða raforku. Ef við notum raforkun gagnrýnislaust þá er hætta á því að raforkukerfið ráði ekki við eftirspurnina. Þess vegna er skynsamlegt að nota raforkuna þegar hennar er raunverulega þörf og reynum að dreifa orkunotkuninni yfir lengra tímabil og gjarnan að nota orkuna utan álagstíma. Þannig er t.d. auðvelt að hlaða rafbílinn og þurrka þvottinn á nóttunni þegar önnur notkun er minniháttar.

Þegar við hitum húsin okkar eða förum í sturtu þá notum við varmaorku. Ef við viljum hafa húsin okkar heit og alltaf njóta langra sturtuferða þá getur komið að því að hitaveitan ráði ekki við eftirspurnina. Til að ráða bót á þessu ættum við að finna skynsamlegt hitastig fyrir húsin okkar og ekki alltaf taka hálftíma sturtur.

Að þessu sögðu er sjálfsagt að benda á að heimili eru ekki stærstu orkunotendurnir og eru aðrir notendur s.s. stóriðja, stórar byggingar og sundlaugar miklu fyrirferðarmeiri.

Orkusparnaður

Í stórum byggingum eru oftast loftræsi- og hitakerfi sem nota bæði raforku og varmaorku. Hægt er að draga úr orkunotkun þessara kerfa á ýmsan hátt t.d.

  • Keyra loftræsikerfin aðeins þegar þeirra er þörf (t.d. á dagtíma)
  • Endurvinna varma úr útsogslofti í loftræsisamstæðum
  • Stýra loftræsikerfum eftir notkunarálagi (sjá grein um flæðilokur)
  • Lækka hita í hringrásarkerfum þegar hitnar í veðri
  • Einangra húsin betur